Innlent

Fimmtán ára ökumaður velti bíl

BBI skrifar
Mynd/ Óskar.
Nokkuð annríki var hjá lögreglunni í Hafnarfirði í nótt en meðal annars var tilkynnt um bílveltu á Hafnarfjarðarvegi laust fyrir klukkan tvö í nótt. Ökumaðurinn var aðeins 15 ára og var ásamt nokkrum farþegum í bílnum. Engan sakaði í óhappinu og voru ökumaður og farþegar sóttir af foreldrum til lögreglu.

Tilkynnt var um bifreið sem ekið hafði verið inn í húsgarð við Engimýri í Garðabæ um hálf fjögur leytið í nótt. Ökumaðurinn var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Miklar skemmdir urðu á bifreiðinni og garðinum en ökumaðurinn slapp óskaddaður en er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.

Í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot við Sunnuflöt í Garðabæ. Þjófarnir spenntu upp glugga og fóru inn en ekki er vitað hverju var stolið.

Þá var einnig tilkynnt um ökufant á Hringbraut í gær sem ekið hafði utan í aðra bifreið og haldið svo áfram án þess að stoppa. Ökumaðurinn var handtekinn skömmu síðar, grunaður um ölvun við akstur og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Loks var tilkynnt um innbrot á Akureyri í gærkvöldi. Gluggi var spenntur upp á húsi á Eyrinni milli kvöldmatarleytis og miðnættist. Ekki var miklum verðmætum stolið en málið er til rannsóknar hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×