Innlent

Jón Gnarr skammar Bandaríkjamenn

BBI skrifar
Jón Gnarr.
Jón Gnarr.
„Ætlar þú aldrei að læra, Ameríka?" spyr Jón Gnarr á Facebook síðu sinni í dag. Þar er hann algerlega bit á umræðu Bandaríkjamanna um skotvopnaeign sem hefur blossað upp eftir skotárás í grunnskóla á dögunum þar sem hátt á þriðja tug manna létu lífið, meirihlutinn börn.

„Allar ykkar byssur og vopn ERU vandamálið. Þið þurfið strangara eftirlit með skotvopnum. Með það sama," segir Jón. „Þetta er til skammar. Fávitar og brjálæðingar æðandi um allt með riffla og samsæriskenningar."

„Og ekki halda að ég viti ekkert um vopn. Ég hef átt alls kyns vopn. Nú á ég Remington 700 Varmint riffil og Remington Marine magnum haglabyssu sem ég nota við veiðar. Faðir minn átti skammbyssu. Þegar ég var þrettán ára fór ég með hana út og skaut af henni. Þá hefði getað orðið slys," segir hann og tekur þar með umræðuna á persónulegri nótur.

„Þið getið valið milli ótta eða ástar. Vinsamlega veljið ást," segir hann að lokum, en færslan öll er á ensku. Hún er skrifuð við myndband af youtube þar sem fjallað er um skotvopnaeign. Myndbandið má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×