Innlent

Flugeldasala hefst á föstudaginn

BBI skrifar
Mynd/Pjetur
Flugeldasala hefst á föstudaginn, en samkvæmt lögum er óheimilt að selja flugelda hérlendis nema á tímabilinu milli 28. desember til 31. desember ár hvert.

Allt er til reiðu hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, en flugeldasala er stærsta fjáröflunarleið félagsins. Fjölmargir sjálfboðaliðar munu taka þátt í sölunni. „Það eru allar sveitir undirlagðar í þessu þessa dagana og rosalega margir sem koma að sölunni," Ólöf S. Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Hún veit ekki nákvæmlega hve margir leggja hönd á plóg en telur líklegt að tala sjálfboðaliða hlaupi á þúsundum.

Landsbjörg byrjar strax í janúar að undirbúa flugeldasölu hvers árs. „Þetta tekur meira og minna allt árið, að fara og velja og koma með nýjungar og koma flugeldunum til landsins og dreifa því til sveitanna," segir Ólöf. Nú er brátt allt til reiðu enda styttist í að flugeldasalan hefjist.

Ólöf segir að nokkuð hafi dregið úr flugeldasölu eftir kreppu. „En það er bara eins og í annarri verslun," segir hún.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brýndi í dag fyrir landsmönnum að fara varlega í sprengigleðinni, fara gegnum öryggisatriði með börnum og sýna gott fordæmi með því að nota öryggisgleraugu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×