Innlent

Tíu gestir í Kvennaathvarfinu um jólin

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Tíu gestir hafa dvalið í Kvennaathvarfinu um jólahátíðina. Framkvæmdastýran segir ástandið á mörgum heimilum hafa versnað fyrir jólin vegna álagsins en lögregla vistaði fjóra í fangageymslu aðfaranótt jóladags vegna heimilisofbeldis.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð fjórum sinnum út aðfaranótt jóladags vegna ofbeldis og ölvunar á heimilum. Í öllum tilvikunum voru einstaklingar handteknir og vistaðir í fangageymslu til að tryggja ástandið á heimilunum. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir fréttirnar ekki koma sér á óvart.

„Þetta er eitthvað sem við höfum séð og eitthvað sem við höfum heyrt af bæði fyrir jólin og eftir þau og auðvitað gestafjöldinn í athvarfinu segir sína sögu yfir jólin," segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, famkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

Um jólahátíðina hafi tíu gestir verið í Kvennaathvarfinu, fimm konur og fimm börn. Hún segir marga hafa haft samband í desember.

„Það er allur gangur á því hvernig desembermánuður og jólin eru í Kvennaathvarfinu. Stundum er það tiltölulega rólegur tími og stundum er það einmitt mikill annamánuður. Hann var það þetta árið. Mikið annríki hjá okkur," segir hún.

„Ég held að konur séu beittar ofbeldi á heimilum sínum allt árið um kring. Þessar gríðarlegu væntingar til þess að allt verði gott og dásamlegt á jólunum standast því miður ekki," segir Sigþrúður.

Hún segir desember oft vera erfiðan mánuð fyrir konur sem búa við heimilisofbeldi.

„Við heyrðum í heilmörgum konum fyrir jólin sem höfðu áhyggjur af svona komandi dögum. Ástandið á heimilinu var að versna og álagið mjög mikið," segir hún. „Streitan var að aukast og álagið á heimilinu var meira. Streita er auðvitað eitt af því sem að ýtir undir ofbeldi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×