Innlent

Segir mikilvægt að eitt gildi um alla

Höskuldur Kári Schram skrifar
Báðir formannsframbjóðendur Samfylkingarinnar vilja að sömu reglur gildi um kjörgengi flokksmanna í öllum aðildarfélögum. Árni Páll Árnason segir mikilvægt að eitt gildi um alla.

Samfylkingarfélagið í Reykjavíkur setur 4 þúsund króna greiðslu félagjalds sem skilyrði til að taka þátt í atkvæðagreiðslu í formannskjöri flokksins. Þetta er eina aðildarfélag flokksins sem fer þessa leið.

Tveir eru í framboði, Guðbjartur Hannesson og Árni Páll Árnason en kosningin verður rafræn og fer fram dagana 18. til 28. janúar næstkomandi.

Margir hafa gagnrýnt þetta skilyrði þar á meðal Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður, sem segir þetta vera á skjön við lýðræðishefð í flokknum.

Guðbjartur Hannesson sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að hann vilji ekki takmarka kjörgengi flokksmanna með þessum hætti.

Árna Páll Árnason, sagði í samtali við fréttastofu í dag að fólk verði að treysta því að þessi atkvæðagreiðsla fari þannig fram að sómi sé að og að eitt gildi um alla. Allsherjaratkvæðagreiðslan sé mikilvægt tæki fyrir Samfylkinguna og greini hana frá öðrum flokkum.

Anna María Jónsdóttir, formaður Stjórnar Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, sagði í samtali við fréttastofu í dag að ekki sé hægt að breyta þessum reglum nema á aðalfundi félagsins en hann verður haldinn 23. febrúar næstkomandi. Húns segir að engin kvörtun hafi borist til stjórnar félagsins útaf þessum reglum - tveir einstaklingar hafi hringt til að athuga hvort hægt væri að ganga frá greiðslu milli jóla og nýárs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×