Innlent

Sem betur fer ekki mjög algengt að ráðist sé á sjúkraflutningamenn

Boði Logason skrifar
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri.
„Þetta kemur því miður stundum fyrir og það er alltaf jafn dapurt að heyra af svona," segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Ölvaður maður sem fallið hafði niður stiga í húsi á Háaleitisbraut í nótt réðst á sjúkraflutningamenn eftir að þeir höfðu búið um sár hans. Handtaka þurfti manninn og vista í fangaklefa.

Jón Viðar segir að svona komi fyrir annað slagið. „Þetta getur gerst í miðbænum eða í heimahúsum þar sem menn halda að aðstæður séu algerlega öruggar. En sem betur fer er þetta ekki mjög algengt," segir hann.

Lögreglumenn fara oft með sjúkraflutningamönnum í útköll. „En það eru alls ekki öll útköll og sem betur fer fá okkar menn oftast að vinna í friði og fá þakklæti fyrir - þeir njóta virðingar hjá flestum þeim sem þeir vinna fyrir. En það eru ákveðnir staðir í bænum sem við vitum að eru vandræðastaðir, og þá fáum við lögregluna með okkur," segir hann.

En hvernig bregðast sjúkraflutningamenn við í aðstæðum sem þessum? „Það er kallað á lögreglu og beðið eftir hjálp. Í sumum tilvikum er reynt að hafa yfirhöndina en yfirleitt er skynsamlegast að draga sig til baka," segir hann.


Tengdar fréttir

Ölvaður maður réðst á sjúkraflutningamenn

Ölvaður maður sem sjúkralið hafði farið að sinna á Háaleitisbraut réðst á sjúkraflutningsmenn. Hann hafði fallið niður stiga í húsi, en eftir að búið var að gera að sárum hans réðst hann á sjúkraflutningamennina og þurfti lögregla að handtaka manninn og vista í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×