Innlent

Búið að rýma nokkur hús

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Hafþór Gunnarsson skrifar
Mynd/BH
Búið er að rýma nokkur hús á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu. Nokkur snjóflóð hafa fallið þar í dag og þurftu björgunarsveitarmenn að koma ökumönnum sem óku inn í snjóflóð til bjargar.

Snjó tók að kyngja niður á Vestfjörðum í nótt. Snemma í morgun féll svo snjóflóð úr Kirkjubólshlíð við Ísafjörð og lokaði veginum. Tveir ökumenn voru að aka hlíðina, þeir sluppu við flóðið en lokuðust inni. Björgunarsveitarmenn sóttu fólkið á snjósleðum. Í framhaldi var tekin ákvörðun um að loka Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu. Upp úr hádegi var svo lýst yfir óvissustigi á norðanverðum Vestfjörðum vegna hættunnar á snjóflóðum.

„Eftir hádegi þegar ekkert dró úr úrkomu þá var tekin ákvörðun um að rýma Steiniðjuna og þá bæi sem eru næst hlíð við Kirkjubólshlíð við Skutulsfjörð," segir Auður Elva Kjartansdóttir hjá snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands.

Þá var einnig ákveðið að rýma bæinn Geirastaði í Syðridal við Bolungarvík og hesthús þar nálægt.

„Þetta eru tvö hús á Bolungarvík og þetta eru ein fjögur hús við Skutulsfjörð," segir Auður.

Síðdegis féll snjóflóð úr Eyrarhlíð milli Hnífsdals og Ísafjarðar. Annað féll svo skammt frá Flateyri. Björgunarsveitarmenn þurftu að aðstoða ökumenn þriggja bíla sem óku inni í flóðið en þá sakaði ekki.

Auður segir erfitt að segja til um hversu mörg snjóflóð hafi fallið á svæðinu í dag.

„Það hefur fallið fjöldi flóða á vegakerfið á norðanverðum Vestfjörðum. Enn höfum við ekki frétt af neinum flóðum á vegakerfið á sunnanverðum Vestfjörðum en við fylgjumst með," segir Auður.

Óvíst er hversu lengi rýming húsanna verður í gildi.

„Það er spáð áframhaldandi stormi með úrkomu aðfaranótt laugardags þannig að við munum bara fylgjast mjög grant með aðstæðum og meta hvern klukktíma fyrir sig," segir Auður.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×