Innlent

Erill hjá lögreglu í nótt

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft í nógu að snúast frá því í gærkvöldi og ekki aðeins í tilvikum sem tengjast veðrinu. Rétt fyrir klukkan átta í gær var tilkynnt um innbrot í Fannafold og hafði húsráðandi komið að tveimur óboðnum gestum í íbúð sinni. Þeir lögðu á flótta og íbúinn á eftir, en hann missti af þeim.

Ökumaður missti stjórn á bíl sínum á Breiðholtsbrautinni um svipað leiti og lenti hann framan á annarri bifreið. Hann er grunaður um ölvun og var fluttur rifbeinsbrotinn á slysadeild.

Um klukkan tíu var maður handtekinn í austurbænum grunaður um kannabisframleiðslu. Á heimili hans fundust um 25 plöntur og er málið í rannsókn.

Þá réðst ölvaður maður á dyraverði Snókerstofunnar í Lágmúla. Þegar lögreglu bar að neitaði maðurinn að yfirgefa staðinn og fór svo að hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Um miðnættis fékk lögreglan svo tilkynningu um að ungur maður gengi berserksgang á heimili foreldra sinna í Seljahverfi. Lögregla handtók manninn og fékk hann einnig að gista í fangaklefa.

Og um klukkan hálf fimm í morgun voru lögreglumenn sendir í Aðalstræti þar sem maður var skorinn á höfði. Þegar lögreglumenn ætla að aðstoða hann tekur hann sig til og grýtir bakpoka sem í var glerflaska, í rúðu lögreglubifreiðarinnar. Glerflaskan brotnaði en bíllinn slapp við skemmdir að mestu. Maðurinn var fluttur á slysadeild þar sem gert var að sárum hans en hann reyndist einnig skorinn á hendi.

Að þessu viðbættu segir lögregla að eins og venjulega hafi hún þurft að sinna málum sem tengjast ölvun, hávaða og slagsmálum í miðbænum.

Nokkuð var einnig um umferðaróhöpp sem tengjast færðinni, meðal annars losnuðu brunnlok af brunnum sem varð til þess að tveir bílar skemmdu hjólabúnað sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×