Innlent

Sést vart milli húsa í Súðavík

mynd/HAG
„Það sést varla milli húsa," segir Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavík. „Það var um miðnætti í gær þegar hann fór að blása alla hressilega og það hefur verið hvasst síðan þá."

Ekkert ferðaveður verður á vestan- og norðanverðu landinu í dag. Á norðanverðum Vestfjörðum er vindhraði víða um þrjátíu metrar á sekúndu og í vindhviðum nær hann allt að fimmtíu metrum á sekúndu. Rafmagn fór af í Súðavík, Bolungarvík og á Ísafirði. Ómar segir að rafmagnsleysið hafi varað í um tvær klukkustundir.

Á tímabili voru 76 einstaklingar strandaglópar í Súðavík í gær. Ómar segir að Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar hafi ferjað fólkið inn í Ísfjörð í tveimur ferðum í gær og komið með mjólk og aðrir vistir í bakaleiðinni.

„Við gerðum okkur grein fyrir að þetta væri stór hópur og að ómögulegt væri að vista allt þetta fólk. En þetta leit strax betur út eftir seinni ferðina. Við vorum með 14 strandaglópa í bænum í nótt og það fór vel um þá."

Óveðrið mun ná hámarki sínu seinna í dag. Ómar segir að Almannavarnanefnd muni funda um stöðu mála í hádeginu og eftir það verða næstu skref ákveðin.

„Annars hefur þetta bara gengið nokkuð vel fyrir sig. Við lokuðum gömlu byggðinni í gær. Núna er það bara að njóta þess að vera heima, fá sér kaffi og klára súkkulaðið," segir Ómar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×