Innlent

Líkamsárásum fjölgar og innbrotum fækkar

Karen Kjartansdóttir skrifar
Innbrotum, umferðarslysum og tilkynningum um veggjakrot fækkar ár frá ári á höfuðborgarsvæðinu en líkamsárásum fjölgar. Þetta er meðal þess sem sjá má þegar rýnt er í bráðarbirgðatölur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar öll skráð brot á höfuðborgarsvæðinu árið 2012 eru skoðuð kemur fram að hegningarlagabrotum fækkaði um 12% samanborið við árið á undan.

Innbrot hafa ekki verið færri á ári frá því talningar hófust hjá lögreglunni. Að meðaltali voru framin á bilinu tvö til þrjú innbrot á dag á árinu samanborið við fjögur á dag í fyrra og átta á dag árið 2009.

Þegar hegningarlagabrot eru skoðuð sérstaklega kemur fram að árið 2012 fækkaði auðgunarbrotum um 13% frá árinu áður. Helgast þetta einkum af fækkun þjófnaða um 600 brot á milli ára. Þá fækkaði tilkynningum um kynferðisbrot nokkuð árið 2012 samanborið við árið 2011 eða um tæp þrjátíu prósent.

Ofbeldisbrotum fjölgaði hins vegar lítillega, eða 4% á milli ára. Tæplega 40% allra líkamsárása átti sér stað í Miðborg Reykjavíkur, þar af þriðjungur í kringum skemmtanahald eftir miðnætti um helgar.

Umferðarslysum fækkaði um 10% frá árinu á undan. Telja þau 331 eða um eitt slys á dag að meðaltali. Minniháttar skemmdarverkum fækkaði um 18%. Tilkynningum um veggjakrot hefur fækkað ár frá ári.

Fíkniefnabrotum fjölgaði um 9% milli ára. Mest fjölgaði málum sem varða vörslu og meðferð fíkniefna. Hinsvegar fækkaði málum tengdum framleiðslu fíkniefna sem höfðu tekið mikinn kipp á síðustu árum.

Hafa ber þann fyrirvara á þessum upplýsingum að tölur fyrir árið 2012 eiga enn eftir að breytast. Þessar upplýsingar gefa þó innsýn í það hvert stefnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×