Innlent

Verkefni björgunarsveita af ýmsum toga

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa víða verið að störfum í dag. Mest hefur verið að gera í Húnavatnssýslum, norðanverðum Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Hátt í 30 aðstoðarbeiðnir í Húnavatnssýslum og var Mest var að gera um hádegisbil í dag en ástandið róaðist þegar leið á daginn. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu voru verkefnin af öllum toga, allt frá brotnum rúðum í bílum upp í laus hlöðuþök. Þakplötur hafa víða losnað, þar á meðal á Blönduósi, Skagaströnd og Hvammstanga sem og í sveitum í kring.

Hið sama var upp á teningnum á norðanverðum Vestfjörðum. Sveitir þar hafa m.a. sinnt vöktun á vegum þar sem snjóflóðahætta er, aðstoðað heilbrigðisstarfsfólk að komast í og úr vinnu, neglt fyrir brotna glugga og aðstoðað orkufyrirtækin svo fátt eitt sé nefnt. Ástandið hefur verið mun betra á sunnanverðum Vestfjörðum og björgunarsveitir ekki verið kallaðar út þar. Vindur hefur ekki verið mjög hvass í þéttbýliskjörnunum Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði en eitthvað bætti í nú síðdegis . Mjög hvasst er hins vegar til fjalla.

Á Snæfellsnesi voru björgunarsveitir að störfum í dag. Tryggja þurfti innkeyrsluhurð á vatnsátöppunarverksmiðju sem var við að gefa sig sökum vindálags. Einnig fauk þak af bílskúr á Hellissandi. Sleðamenn sveitanna aðstoðuðu svo Rarik við að leita að bilun í raflínunni fyrir ofan Ólafsvík en talið er að hún liggi niðri á kafla. Fylgja þeir línunni til að finna bilunina en veður er mjög slæmt og skyggni lítið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×