Innlent

Óalgengt að konur séu lagðar inn með morgunógleði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ófrískar konur með morgunógleði fá oftast þjónustu á göngudeild nú til dags.
Ófrískar konur með morgunógleði fá oftast þjónustu á göngudeild nú til dags.
„Við hérna á Landspítalanum sjáum svona sjúklinga reglulega," segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir um morgunógleði ófrískra kvenna. Eins og öll heimsbyggðin hefur séð var Katrín, eiginkona Vilhjálms Bretaprins, lögð inn á spítala í síðustu viku með morgunógleði, en hún er barnshafandi.

Ebba Margrét segir algengt að konur fái morgunógleði, en einungis lítið hlutfall kvenna þurfi innlögn á spítala. „Við gefum þeim vökva í æð, sumar eru það slæmar að þær þurfa innlögn þó að það sé sjaldgæfara nú," segir Ebba. „Við erum farin að sinna þessu meira sem göngudeildarþjónustu, konur missa oft mikið úr vinnu og þetta veldur mikilli vanlíðan," segir Ebba.

Ebba segir að þegar mikil morgunógleði geri vart við sig sé mikilvægt að sónarskoða og vera viss um að það sé eðilileg þungun til staðar. Þá segir hún að morgunógleði sé algengari þegar konur gangi með fleira en eitt barn. „Og þetta er ekki bara morgunógleði, þetta er stundum ógleði allan daginn," segir hún.

„Þessar konur þurfa stuðning og skilning, vökva og ógleðistillandi lyf og þannig er þeim hjálpað í gegnum þessar erfiðu vikur. Þetta lagast oft eftir fyrstu tólf vikurnar þótt sumar upplifi oft ógleði allar vikurnar," segir Ebba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×