Innlent

„Það eina sem gerist 21. desember eru vetrarsólstöður“

„Það eru alltaf til þeir sem vilja hræða aðra og mögulega græða smá peninga í leiðinni," segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Hann var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag og ræddi þar við þáttastjórnendur um meintan heimsendi þann 21. desember næstkomandi.

„Fyrir nokkrum árum varð sú saga til að á Jörðina stefndi pláneta að nafni Nibiru, eða reikistjarnan X, sem Súmerar til forna áttu að hafa uppgtövað. Þessi hnöttur rakst ekki á jörðina í maí árið 2003 ein sog upphaflega var spáð. Heimsendir varð því framlengdur," segir Sævar.

Vangaveltur um heimsenda 21. desember árið 2012 hverfast um eitt af dagatölum Maya sem rennur út á þessum tiltekna degi.

„Þetta er svipað og þegar okkar dagatal rennur út 31. desember á ári hverju. Þetta tiltekna dagatal er byggt upp af hringum og einn slíkur er 144 þúsund daga, eða 394 ár. Og það vill bara svo til að þessi hringur tekur enda 21. desember. En þá tekur náttúrulega næsti hringur við."

Þá segir Sævar að það sé ekkert sem snýr að uppröðun himintunglanna sem gefi til kynna að þessi tiltekni dagur verði frábrugðin öðrum. Þannig er fátt merkilegt við hátterni reikistjarnanna eða sólar.

„Það er reyndar einn merkilegur stjarnfræðilegur atburður sem á sér stað á þessum degi og það eru vetrarsólstöður. Sólin fer þá hækkandi."

Þá tekur Sævar fram að hann hlakki mikið til Jólanna.

Hægt er að hlusta á fróðlegt viðtal við Sævar í heild sinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×