Innlent

Fólk er að leita að því sérstaka - 12.12.12 í dag

Boði Logason skrifar
„Ég er að fara gifta klukkan sjö í kvöld, það er skemmtilegt því maður giftir ekki oft á miðvikudögum," segir séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur. Í dag er síðasti dagurinn á þessari öld þar sem tölurnar í dagsetningunni eru þær sömu, 12.12.12.

Þeir prestar sem fréttastofa ræddi við í morgun eru sammála um það að fólk sé spennt fyrir þessari einstöku dagsetningu en öðrum. Í Bandaríkjunum er áætlað að 7500 brúðkaup fari fram í dag, að sögn AFP-fréttastofunnar.

Séra Vigfús Árnason, sóknarprestur í Grafarvogi, segir hann hafi verið beðinn um að skíra í kvöld en sé því miður upptekinn. „Það er ekki mikið í gangi með giftingar hjá mér í dag, af því þetta er náttúrulega miðvikudagur og annar tími á Aðventunni," segir hann.

Vigfús og Hjálmar segja þó báðir að fjölmargar beiðnir hafi borist um að gifta á næsta ári, nánar tiltekið sjöunda september, 07.09.13, en sá dagur er einmitt laugardagur. „Þetta er saklaus hjátrú, núna er fólk að leita að hinu sérstaka í þessum einstöku dagsetningum," segir Hjálmar.

Þeir rifja upp dagsetninguna 07.07.07, en sá dagur var laugardagur - og í júlí - sem er vinsæll mánuður hjá verðandi hjónum að gifta sig. „Ég gifti átta sinnum þann dag og síðasta brúðkaupið var í Keflavík. Það var ekki laust við að maður var orðinn örlítið þreyttur en ég hef aldrei gift svona oft á einum degi," segir Vigfús. Hjálmar var einnig upptekinn þann dag. „Ég gifti líka átta sinnum, það var nóg að gera þennan dag."

„Á stórum dögum í júlí er ekkert óalgegnt að maður gifti kannski þrisvar sinnum, en það er ekki venjulegt að gifta átta sinnum á einum degi," segir Vigfús kíminn.

Vigfús segir að ekki sé mikið að gera í giftingum þessa daganna. „Það er smá stopp núna en fólk virðist ætla að drífa sig í þessu næsta sumar. Það er búið að panta hjá mér fleiri giftingar næsta sumar en var í allt sumar, og það er enn bara desember. Ég held að fólk sé að átta sig á því að það sé hægt að gifta sig án þess að það kosti, eina eða tvær milljónir. Fólk er meira farið að gera þetta bara sjálft, grilla í garðinum og halda veisluna heima," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×