Innlent

Sveitastjórinn með tárin í augunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eygló Kristjánsdóttir, sveitastjóri á Kirkjubæjarklaustri, er með tárin í augunum eftir að sundlauginni á Kirkjubæjarklaustri var lokað í morgun. Grunnskólabörn munu því ekki komast ekki í skólasund á næstunni.

Ástæðan fyrir lokuninni er sú að sundlaugin er kynnt upp með orku frá sorpbrennslustöðinni. Þegar upp kom díoxinmengun í sorpbrennslustöð á Ísafirði breytti Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra reglugerð fyrir eldri sorpbrennslustöðvar. Eftir það hefur sorpbrennslustöðin á Kirkjubæjarklaustri ekki uppfyllt þær kröfur sem reglugerðin gerir. Sveitarfélagið hefur því verið svipt leyfi til að reka sorpbrennsluna. Eygló Kristjánsdóttir sveitastjóri fullyrðir að sorpvinnslustöðin mengi ekki of mikið heldur séu það tæknileg atriði varðandi nýju reglugerðina sem sorpvinnslustöðin uppfylli ekki.

Kirkjubæjarklaustur, sem nýtur aðstoðar eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga vegna slæmrar fjárhagsstöðu, óskaði eftir því að fá leyfi til að starfrækja stöðina fram í mars 2015. Umhverfisstofnun hefur frest til 18. desember til að svara þeirri beiðni. Starfsleyfi sorpbrennslustöðvarinnar rann aftur á móti út í gær og úr því að svar var ekki komið frá Umhverfisstofnun var ákveðið að loka sundlauginni.

Eygló sér ekki fram á að geta haldið úti starfsemi sundlaugarinnar við þessar aðstæður og málið muni hafa í för með sér röskun á skólastarfi. Grunnskólabörn komist ekki í sund á meðan málin standi svona. „Maður er bara með tárin í augunum," segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri á Kirkjubæjarklaustri, aðspurð hvort þetta sé svekkjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×