Innlent

Leynilisti Bjartar framtíðar tekinn að skýrast

Heiða Kristín Helgadóttir mun ekki leiða listann í Reykjavíkurkjördæmi norðri.
Heiða Kristín Helgadóttir mun ekki leiða listann í Reykjavíkurkjördæmi norðri.
Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri og varaformaður Besta flokksins, mun ekki leiða lista Bjartrar framtíðar í Reykjavík norður, heldur verður það önnur kona. Ekki er vitað hvaða kona það verður, en eins og Vísir greindi frá fyrr í dag ríkir leynd yfir framboðslistanum - sem var engu að síður samþykktur af fjölmennri stjórn Bjartrar framtíðar í gærkvöldi.

Þó er vitað að Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, mun sitja í 5. sætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður en þar mun Óttar Proppé, borgarfulltrúi, einnig taka sæti. Þá er ljóst að þingmaðurinn Róbert Marshall mun leiða listann í Reykjavíkurkjördæmi suðri. Guðmundur Steingrímsson mun svo leiða listann í fjölmennasta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi. Freyja Haraldsdóttir mun sitja í öðru sæti í sama kjördæmi. Í þriðja sæti verður Guðlaug Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari og formaður BHM. Erla Karlsdóttir varabæjarfulltrúi í Kópavogi og Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri verða í fjórða og fimmta sæti.

Árni Múli Jónasson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi, mun leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi og Brynhildur Pétursdóttir, starfsmaður Neytendasamtakanna á Akureyri, mun leiða lista í Norðausturkjördæmi. Ekki er vitað hver leiðir lista í öðrum kjördæmum.

Björt framtíð hefur aðeins birt listann fyrir Suðvesturkjördæmi en í tilkynningu kemur fram að aðrir listar verða birtir á næstu dögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×