Innlent

Leynd hvílir yfir framboðslistum Bjartrar framtíðar - Jón leiðir engan lista

Jón Gnarr
Jón Gnarr mynd/stefán karlsson
Björt framtíð neitar að upplýsa hverjir eru á framboðslistum flokksins sem samþykktir voru í gærkvöldi. Það er þó ljóst að Jón Gnarr, borgarstjóri, mun bjóða sig fram, en hann verður í fimmta sæti. Því er ólíklegt að hann nái kjöri sem þingmaður miðað við niðurstöður skoðanakannana.

Framboðslistar Bjartrar framtíðar voru samþykktir á stjórnarfundi flokksins í gærkvöldi. Sérstök uppstillingarnefnd flokksins kynnti niðurstöður sínar, en búið er að raða á fjögur til fimm efstu sæti listans í öllum kjördæmum landsins samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Listarnir voru svo samþykktir einróma.

Athygli vekur að Björt framtíð neitar að upplýsa hverjir eru á listunum en þau svör fást úr herbúðum flokksins að listarnir verða kynntir þegar það er tímabært.

Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, mun verða á lista Bjartar framtíðar, en ekki hefur fengist staðfest í hvaða kjördæmi það verður, þó líkur megi leiða að hann það verði í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

Flokkurinn hefur verið að mælast með fylgi frá 4,5 prósenti upp í rúm 8 prósent í síðustu skoðanakönnunum.

Fari svo að flokkurinn nái átta prósentum fær flokkurinn um 5 þingmenn inn á landsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×