Innlent

Offita kostar ríkið 5 til 10 milljarða á ári

Beinn kostnaður ríkisins vegna offitu er líklega um fimm til tíu milljarðar á ári og tveir þriðju hlutar dauðsfalla hér á landi orsakast af sjúkdómum sem tengjast lífsstíl beint, þar af mataræði að verulegu leyti. Þetta kemur fram í umsögn SÍBS við frumvarpi um breytingar á vörugjöldum og tollamálum.

Sambandið styður frumvarpið, hvað varðar álagningu valkvæðs vörugjalds á viðbættan sykur. „Ákvæði um sykurskatt er vel til þess fallið að setja skýran mælikvarða á lýðheilsu- og heilsu­hagfræðilega þætti tengda neyslumynstri og forsenda þess að viðurkenna vandann. Sakir samfélagslegs kostnaðar og heilsufaráhrifa offitu, telur SÍBS ofneyslu sykurs ekki vera alfarið einkamál hvers og eins, frekar en neysla áfengis og tóbaks," segir meðal annars í umsögninni.

SÍBS tekur undir rökstutt viðhorf Landlæknis, að neyslustýring með skatt­lagningu sé áhrifarík leið til að minnka neyslu óhollra vara, bæta heilsu og draga úr útgjöldum.

„SÍBS telur að lengra þurfi að ganga í gjaldtöku af gosdrykkjum og sælgæti, og að slíkt verði bæði gert með vörugjöldum og virðisaukaskattshækkun á þessum vöruflokkum. Helmingur neyslu á viðbættum sykri stafar af neyslu gosdrykkja (30%) og sælgætis (20%). Norðurlöndin skattleggja undantekingalaust sykur og sætindi þótt fyrirhugaðri beinni skattlagningu á viðbættan sykur hafi verið slegið á frest í Danmörku og Noregi. Því getur valkvæð leið líkt og lagt er til í frumvarpinu verið heppileg til að brúa bæði sjónarmið," segir í umsögninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×