Innlent

Segir ríki, sveitarfélög og fyrirtæki hafa velt vandanum yfir á launafólk

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki hafa velt vanda sínum yfir á launafólk sem er ekki aflögufært. Þetta segir forseti Alþýðusambands Íslands sem vill að launaliður kjarasamninganna verði endurskoðaður. Formaður Samtaka atvinnulífsins segir ekkert þangað að sækja.

Samninganefnd ASÍ og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins hittust á sínum fyrsta fundi í dag vegna síðustu endurskoðunar núgildandi kjarasamninga. Báðir aðilar hafa til 21. janúar til segja samningunum upp. SA segja að samningunum verði ekki sagt upp að þeirra frumkvæði en ASÍ hefur enga ákvörðun tekið.

„Það er alveg ljóst að við teljum að þurfi einhvern veginn að endurskoða þennan launalið það gefur augaleið," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

„Það er ekkert til okkar að sækja og við sjáum ekkert hvernig við ættum að geta það miðað við þær aðstæður sem að eru í dag." segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka Atvinnulífsins.

Gylfi svarar þessu raunar þannig að það sé ekkert heldur að sækja til félaga ASÍ. „en samt hafa nú fyrirtækin í landinu verið að hækka verð á vöru og þjónstu þannig að einhvern veginn verðum við að ná saman um þetta. Það er ljóst að það er mjög þröng staða en hún er líka þröng hjá heimilinum. Okkur finnst einhvern veginn eins og þessar brostnu væntingar varðandi það sem við gætum hafa fengið hafi einhvern veginn leitt til þess að bæði ríki, sveitarfélög og fyrirtæki eru að velta þessum vanda yfir á okkur og við erum ekkert aflögufær. Þess vegna held ég að þessi samræða verði að fara fram um hvað er hægt að gera til þess að koma til móts við þetta," segir Gylfi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×