Innlent

Kærður fyrir hrottalegt ofbeldi gegn konu sama dag og hann fékk nálgunarbann

Maðurinn, sem er kærður fyrir að hafa misþyrmt átján ára stúlku með hrottafengnum hætti á gistiheimili á dögunum, fékk nálgunarbann um miðjan október vegna sífelldra ofsókna og ofbeldis sem hann á að hafa beitt fyrrverandi unnustu sína. Sama kvöld og hann fékk nálgunarbannið, misþyrmdi hann annarri konu hrottalega.

Svo virðist sem maðurinn sé heltekin af fyrrverandi unnustu sinni, en hann varð næstum manni að bana árið 2003 þegar hann skallaði hann í andlitið, þannig tennur brotnuðu, og skar hann svo á háls.

Aðeins heppni varð til þess að maðurinn lést ekki af sárum sínum, en alls réðist hann á þrjá menn vopnaður hnífi í umræddi árás. Í niðurstöðu dómsins var tilgangur hans með árásinni að skaða sem mest en hann hlaut sjö ára fangelsi fyrir árásina sem þótti ófyrirleitin.

Ástæðan fyrir árásinni voru samskipti fyrrverandi unnustu mannsins við mennina.

Í gæsluvarðhaldskröfu sem Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag, kemur fram að fyrrverandi unnusta hans hafi fengið nálgunarbann á hann vegna hrottafengins ofbeldis sem hann hefur ítrekað beitt hana.

Þannig er hann grunaður um að hafa ráðist á fyrrverandi unnustu sína í janúar síðastliðnum. Þá sló hann hana í andlitið með krepptum hnefa. Hann á einnig að hafa slegið hana með olnboga, lamið höfði hennar utan í vegg og sparkað ítrekað í hana þar sem hún lá illa áttuð á gólfinu.

Maðurinn, sem er fæddur árið 1979, var svo fjarlægður af heimili konunnar í febrúar á þessu ári en þá hafði hann skemmt húsgögn og fleira á heimilinu. Maðurinn er síðast grunaður um að hafa eyðilagt innanstokksmuni á heimili fyrrverandi unnustu sinnar í ágúst síðastliðnum, sama mánuði og hann á að hafa nauðgað konu með hrottafengnum hætti.

Maðurinn var dæmdur í hálfs árs nálgunarbann gagnvart fyrrverandi unnustu sinni í október. Sama kvöld og hann fékk nálgunarbannið á hann að hafa misþyrmt annarri konu á heimili hennar. Lýsingin er hrottaleg, en maðurinn er meðal annars kærður fyrir að hafa slegið hana í jörðina og hoppað á maganum á henni.

Ofbeldisbrot mannsins virðast raunar ítrekað beinast að konum, en hann hefur verið kærður fyrir að beita fjórar konur ofbeldi, og svo að nauðga annarri bæði í leggöng og endaþarm.

Maðurinn gekk meðal annars svo hrottalega í skrokk á átján ára stúlkunni á gistiheimili á Snorrabraut fyrir skömmu að ekki reyndist unnt að taka röntgen-myndir af henni vegna bólgu.

Í kröfu lögreglustjórans, sem fer fram á gæsluvarðhaldið, kemur fram að brot mannsins séu í eðli sínu svo svívirðileg að almannhagsmunir krefjist þess að hann sæti gæsluvarðhaldi. Það myndi valda mikilli hneykslun og særa réttarvitund almennings gengi hann frjáls ferða sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×