Innlent

Fékk fyrsta sætið í afmælisgjöf

Ingibjörg Reynisdóttir.
Ingibjörg Reynisdóttir.
„Það er greinilegt að Gísli hefur brennt sig inní þjóðarsálina og fólk er áhugasamt um hann," segir Ingibjörg Reynisdóttir, rithöfundur og leikkona, en bók hennar Gísli á Uppsölum, fór í fyrsta sætið á lista Félags bókaútgefanda yfir mest seldu bækurnar í síðustu viku. Þannig velti hún úr sessi gamalkunnum kóngi, honum Arnaldi Indriðasyni, sem gaf út Reykjavíkurnætur þetta árið.

Spurð hvað megi skýra þessa velgengni, hvort það sé þessi saga um einfaldari tíma, svarar Ingibjörg: „Það er allavega það sem fékk mig til þess að skrifa hana. Það er gott að staldra við og virða fyrir sér einfaldleika fortíðarinnar. Enda vorum við orðin ansi geðbiluð í neyslunni."

Ingibjörg bætir við að bókin sé ekki síður holl áminning fyrir yngri kynslóðina, „þessa sem á allt," bætir hún við. Ingibjörg horfir hinsvegar raunsæjum augum á velgengnina, „jólatraffíkin var bara að byrja," segir hún varfærnislega af ótta um að missa fyrsta sætið áður en yfir lýkur. „En það var gaman að prófa það," bætir hún við.

Ingibjörg segir bókina annars standa fyrir sínu. Hún höfði til breiðs hóps og tekst á við þrautseigt vandamál íslenska samfélagsins með athyglisverðum hætti, það er eineltið. „Það er eins og fjórða stigs krabbamein," lýsir Ingibjörg þegar hún talar um einelti í samfélaginu. Spurð út í eineltið sem Gísli varð fyrir svarar Ingibjörg: „Það svipti hann öllu hugrekki sem ungur drengur."

Eineltið mótaði semsagt Gísla og að lokum birtist hann þjóðinni sem hálfgerður furðufugl. Það var hann þó alls ekki, að sögn Ingibjargar, hann var einlægur maður sem velti mikið fyrir sér tilgangi lífsins. „Og hann stendur að lokum uppi sem sigurvegari öllum þessum árum síðar. Fólkið sem kom illa fram við hann er gleymt."

Það vill reyndar svo skemmtilega til að Ingibjörg á afmæli í dag. Gjöfin er því nokkuð einstök. „Og ég gaf bókina út á 105 ára afmæli Gísla. Svo fæ ég þessa afmælisgjöf frá honum," segir Ingibjörg um sérkennilega hringrás lífsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×