Innlent

Hæstiréttur staðfestir dóm yfir DV

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars um að ritstjórar DV, þeir Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, og DV ehf. greiði Jóni Snorra Snorrasyni, 200 þúsund krónur hver fyrir ummæli sem birtust um Jón Snorra í DV í mars á síðasta ári.

Það voru ummælin „Lögreglan rannsakar lektor" og „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögreglurannsókn" sem voru dæmd dauð og ómerk í héraðsdómi. DV fjallaði um málefni Jóns Snorra þegar hann sat í stjórn fyrirtækisins Sigurplast ehf.

Ritstjórarnir og fréttastjórinn kröfðust þess að vera sýknaðir þar sem Jón hafði verið kærður til lögreglu ásamt stjórn Sigurplasts. Héraðsdómur tók undir að stjórnin hafi verið kærð til lögreglunnar, en rannsókn hefði ekki verið hafin á málunum, eins og látið er líta út fyrir í ummælunum.

„Hin ómerktu ummæli voru röng og meiðandi fyrir stefnda. Við athugun á umfjöllun og myndbirtingum um málefni Sigurplasts ehf. og fyrirsvarsmanna þess í prentaðri útgáfu DV og netútgáfunni dv.is er gerð atlaga að mannorði stefnda, sem þá voru engar forsendur fyrir," segir í dómi Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×