Innlent

Íslendingur í Tókyó: Sem betur fer ekkert í líkingu við hamfarirnar í fyrra

Boði Logason skrifar
Hilmar ásamt eiginkonu sinni og dætrum, en fjölskyldan hefur búið í Tokyo í þrjú ár. Klukkan í Tokyo núna er 19:30 um kvöld - smá tímamunur.
Hilmar ásamt eiginkonu sinni og dætrum, en fjölskyldan hefur búið í Tokyo í þrjú ár. Klukkan í Tokyo núna er 19:30 um kvöld - smá tímamunur. Mynd úr einkasafni
"Ég var bara hérna heima með stelpunum mínum og fann vel fyrir honum - það hristist allt hérna," segir Hilmar Þórlindsson, sem býr í Tókyó í Japan en jarðskjálfti upp á 7,3 stig varð undan austurströnd landsins í morgun.

Gefin var út flóðbylgjuviðvörun eftir skjálftann en mælingar leiddu í ljós að flóðbylgjan er um einn meter á hæð. Ekki hafa borist fréttir af mann- eða eignatjóni vegna hennar.

Hilmar segir að skjálfinn hafi staðið yfir í langan tíma. „Þetta er svakalegt jarðskjálftasvæði. Þegar það hafa komið skjálftar þá byrja þeir yfirleitt rólega og svo hættir það. En þegar þetta heldur áfram eins og í dag þá fer maður að rifja upp skjálftann og hamfarirnar í fyrra. Þetta var sem betur fer ekkert í líkingu við það," segir Hilmar.

Fjölmiðlar í landinu hafa fjallað mikið um skjálftann í morgun, enda varð gífurlegt tjón í landinu eftir að flóðbylgja skall á Miyagi hérað í mars í fyrra og olli meðal annars kjarnorkuslysi í Fukushima.

„Fólk var ekki í hrætt þegar skjálftinn reið yfir áðan, það var ekkert panikk eða svoleiðis. En fólk er að sjálfsögðu á tánum eftir hörmungarnar í fyrra," segir Hilmar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×