Innlent

Ingveldur sett í embætti hæstaréttardómara

BBI skrifar
Ingveldur ásamt Ögmundi Jónssyni, innanríkisráðherra.
Ingveldur ásamt Ögmundi Jónssyni, innanríkisráðherra. Mynd/innanrikisráðuneytið
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefur ákveðið að setja Ingveldi Einarsdóttur í embætti hæstaréttardómara til tveggja ára. Hún tekur þar með sæti hæstaréttardómarans Páls Hreinssonar í réttinum, en hann hefur fengið tímabundið leyfi til að sinna dómsstörfum við EFTA dómstólinn.

Ingveldur hefur starfað sem dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur að undanförnu og hefur því talsverða reynslu af dómstörfum.

Auk Ingveldar sóttu Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Arnfríður Einarsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, Ása Ólafsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, og Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness um embættið.

Niðurstaða dómnefndar var sú að þau Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson væru hæfust umsækjenda til að gegna embættinu en Ögmundur hefur nú ákveðið að skipa Ingveldi.

Ingveldur og Þorgeir eiga bæði langan feril að baki sem héraðsdómarar. Ása hefur verið sjálfstætt starfandi lögfræðingur um árabil og býr yfir fjölbreyttri stjórnsýslureynslu, hefur sinnt umfangsmikilli kennslu við háskóla og ritað fræðirit og -greinar.

Með vísan til þess að af þeim 12 dómurum sem nú starfa við Hæstarétt eru aðeins tvær konur var ákveðið að valið stæði milli Ásu og Ingveldar og var að lokum ákveðið að Ingveldur hlyti embættið vegna þeirrar reynslu sem hún hefur af dómstörfum.

Ingveldur Einarsdóttir er sett í embætti hæstaréttardómara frá 1. janúar 2013 og gildir setning hennar til ársloka 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×