Innlent

Þingsályktunartillaga um millidómstig

BBI skrifar
Þorgerður Katrín.
Þorgerður Katrín.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði í gær fram þingsályktunartillögu um stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Lagt er til að innanríkisráðherra stuðli að því að frumvarp um millidómstigið verði samið og það verði lagt fram ekki síðar en 10. september á næsta ári.

Lagt er til að stuðst verði við niðurstöður tveggja starfshópa sem skiluðu annars vegar skýrslum árið 2008 og hins vegar árið 2011. Báðir komust að því að æskilegt væri að stofna millidómstig hérlendis til þess að létta álagi af Hæstarétti og bæta íslenskt réttarfar að öðru leyti.

Ísland er eitt Norðurlanda með tveggja dómstiga kerfi þar sem héraðsdómstólar dæma í málum á neðra stigi og Hæstiréttur á æðra stigi. Annars staðar á Norðurlöndunum er millidómstigi skotið þar á milli og er því m.a. ætlað að endurmeta munnlega framburði en æðsti dómstóllinn hefur aðeins fordæmisgefandi hlutverk.

Starfshópur innanríkisráðherra sem skilaði skýrslu á síðasta ári taldi rétt að dómarar yrðu 15 á millidómstiginu og störfuðu í fimm deildum. Í kjölfarið mætti fækka dómurum við Hæstarétt enda myndi málum sem rata til Hæstaréttar fækka umtalsvert ef millidómstig væri sett á stokk.

Í greinargerð er bent á að almenn samstaða sé um mikilvægi þess að koma á fót millidómstigi meðal allra þeirra sem koma að réttarkerfinu hér á landi, dómara, lögfræðinga og ráðherra. Einnig er bent á að íslenska dómkerfið kosti hlutfallslega um 40-47% af kostnaði við dómkerfi hinna Norðurlandanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×