Innlent

Hunsuðu lokanir lögreglu: Þú segir mér ekki til!

Þarna má sjá einstakling freistast til þess að hlaupa í gegnum svæðið. Skömmu síðar fylgdi annar á eftir.
Þarna má sjá einstakling freistast til þess að hlaupa í gegnum svæðið. Skömmu síðar fylgdi annar á eftir.
„Þú segir mér ekki til og hættu að vera dónalegur við mig," var meðal þess sem lögreglan fékk að heyra frá gangandi vegfarendum á Laugaveginum í gær. Ástæðan var ekki óþarfa afskiptasemi af gestum Laugavegarins, heldur sú að þetta sama fólk freistaðist til þess að ganga framhjá logandi húsi við Laugaveginn þar sem björgunaraðgerðir og slökkviliðstörf stóðu yfir.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að það sé stundum erfitt að fá það hlutskipti að segja fólki til og þá er sama á hvaða aldri fólk er sem biðlað er til.

Svona lýsir lögreglan atvikum: „Það hlutverk fá lögreglumenn við ýmiss verk svo sem lokanir svæða til að tryggja vinnusvæði og öryggi almennings. Lögreglumenn sem gættu vettvangs á Laugavegi í gær þegar aðgerðir stóðu sem hæst vegna bruna í fjölbýlishúsi, við björgun fólks og verðmæta, mættu undarlegu viðmóti vegfarenda. Þrátt fyrir skýr merki með lokunarborðum lögreglu „AÐGANGUR BANNAÐUR – LÖGREGLAN" sáu margir sig knúna til að klofa yfir eða skríða undir lokunarborða."

Þegar lögreglumenn bentu þeim á að svæðið væri lokað sagðist fólk einfaldlega þurfa að komast í gegn.

Lögreglan tekur sérstaklega fram að þarna áttu ekki börn í hlut, heldur fullorðnir einstaklingar.

„Sumir brugðust við fyrirmælunum með að segja „þú segir mér ekki til…" eða "hættu að vera dónalegur" í kjölfarið á að lögreglumaðurinn sagði „fyrirgefðu en hér er lokað, það stendur einnig á borðanum sem þú varst að skríða undir". Lögreglumenn höfðu fullt í fangi með að hlaupa á milli til að stöðva fullorðið fólk á þessum tíma og þurftu að hlaupa á milli lokana til þess," segir á síðu lögreglunnar sem segir það mikilvægt fyrir almenning að muna að virða lokanir lögreglu, sem eru ekki settar upp í glensi, heldur fullri alvöru, til að tryggja vinnusvæði viðbragðsaðila og öryggi annarra.

Þessu til sönnunar mátti sjá lögreglu elta tvo einstaklinga sem hlupu framhjá brennandi húsinu á sama tíma og fréttamaður Stöðvar 2 tók viðtal við búðareiganda. Og má sjá mynd af því atviki hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×