Innlent

Tamningakonan rekin

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ung hestakona sem sést reyna að temja hest á umdeildu myndbandi, var leyst frá störfum sínum sem tamningakona í gær. Hún hefur ráðið sér lögmann, en konan hefur hingað til talin eiga framtíðina fyrir sér í faginu.

Myndbandið sem um ræðir er yfir árs gamalt og var sett inn á Youtube af þýskri hestakonu.

Fjölmiðlaumfjöllun um málið hófst í gærkvöldi og þá steig fram fjöldi fólks í netheimum sem kallaði stúlkuna öllum illum nöfnum og óskaði henni jafnvel líkamsmeiðingum. Myndbandið var fjarlægt af netinu í gær.

Þar virtist mörgum sem unga konan væri að meiða hestinn með píski. Hestamenn sem fréttastofa hefur rætt við segja það alls ekki raunina, en tamningaaðferðin sé vissulega harkaleg. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var afar erfitt að tjónka við umrætt hross og var því slátrað fyrir allnokkru síðan.

Konunni er almennt borin vel sagan. Hún útskrifaðist í fyrra sem tamningamaður frá háskólanum á Hólum þar sem hún þótti standa sig með prýði.

Dýraverndunarsambandi Íslands bárust fjölda ábendinga vegna myndbandsins og forsvarsmenn félagsins tilkynntu konuna til lögreglu í dag.

Þá sendi Félag tamningamanna frá sér yfirlýsingu þar sem þær tamningaaðferðirnar sem sjást í myndbandinu eru fordæmdar og málinu vísað til aganefndar félagsins.

Eftir að umræða hófst um myndbandið í gær var konunni sagt upp störfum þar sem hún starfaði sem tamningamaður á hestabúi.


Tengdar fréttir

Íslensk kona lemur hest ítrekað með svipu

Hrollvekjandi myndband sem Nicole Muller setti inn á Youtube sýnir konu berja hest ítrekað með svipu. Það er augljóst að fólkið á myndbandinu er íslenskt, en þar má meðal annars heyra karlmann tala íslensku við konuna. Hann segir meðal annars meira eftir að hún lemur hestinn ítrekað með svipu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×