Innlent

Aron Karlsson dæmdur í tveggja ára fangelsi

Aron Karlsson við þingfestingu málsins.
Aron Karlsson við þingfestingu málsins.
Aron Karlsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Dómur í máli sérstaks saksóknara gegn honum var kveðinn upp rétt fyrir hádegi. Þá þarf Aron að greiða Arion banka, Glitni og Íslandsbanka samtals um 160 milljónir í bætur. AK fasteignafélag, sem er í eigu Arons, var gert að sæta upptöku á rúmum 96 milljónum króna sem var ávinningur af brotinu.

Eins og fram kom í fréttum á Stöð 2 og Vísi í apríl var fasteignin við Skúlagötu 51 í eigu feðganna Arons Karlssonar og Karls Steingrímssonar, sem gjarnan er kenndur við Pelsinn. Feðgarnir hafa verið býsna umsvifamiklir í fasteignaviðskiptum á undanförnum árum. Á húsinu við Skúlagötu hvíldu fjögur tryggingarbréf í eigu Arion Banka, slitastjórnar Glitnis og Íslandsbanka. Hvert bréf stóð í 246 milljónum króna haustið 2008.

Upphaflega var húsið í eigu félagsins Vindasúlna ehf, sem er í eigu þeirra feðga. Hinn 2. desember 2009 var gert tilboð í húsið af hálfu indversks félags. Húsið var aftur á móti flutt út úr Vindasúlum ehf. hinn níu dögum síðar, hinn 11. desember og inn í eignarhaldsfélagið 2007 ehf. Þremur dögum síðar gerði sami aðili annað tilboð í húsið upp á 575 milljónir króna. Þann 16. desember féllust bankar sem höfðu veð í fasteigninni á tilboðið og gengið var frá sölunni. En aðeins degi síðar seldi hinn nýi eigandi húsið til kínverska sendiráðsins fyrir 870 milljónir króna.

Bankarnir sem áttu veð í fasteigninni telja að með þessum gjörningi hafi feðgarnir haft af þeim allt að 300 milljónir króna og kærðu málið til lögreglunnar. Fjársvik samkvæmt almennum hegningarlögum felast í að styrkja eða hagnýta sér villu brotaþola um einhver atvik og hafa þannig fé af honum eða öðrum. Fjársvik Arons Karlssonar eru talin felast í því að hafa útbúið áðurnefnda fléttu í desember 2009 og þannig haft fé af bönkunum sem áttu veðréttindi í fasteigninni.

Hinn 19. janúar 2010 framkvæmdi efnahagsbrotadeild húsleitir á þremur stöðum vegna málsins, meðal annars á skrifstofu feðganna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.