Innlent

Of dýrt að fara hagkvæmustu leiðina

BBI skrifar
Isavia vill nota efnið úr Vaðlaheiðargöngum í nýtt flughlað.
Isavia vill nota efnið úr Vaðlaheiðargöngum í nýtt flughlað. Mynd/Kristján J.
Rekstraraðilar flugvallarins á Akureyri vilja nota efnið úr Vaðlaheiðargöngum í nýtt flughlað við flugvöllinn. Hins vegar lítur út fyrir að fjárhagur þeirra leyfi ekki slíkar framkvæmdir þrátt fyrir að það sé hagstæðasta leiðin í stöðunni að nota efnið úr göngunum. Þetta kemur fram á fréttavef Vikudags.

„Það er dýrt að vera fátækur," segir Haukur Hauksson, framkvæmdastjóri flugvalla- og mannvirkjasviðs Isavia, en fyrirtækið annast rekstur og uppbyggingu flugvalla landsins.

Nýtt flughlað yrði notað til að þjónusta stórar farþegaþotur á Akureyrarflugvelli. Flughlaðið myndi kosta hátt í 800 milljónir króna, þar af kostar nærri 300 milljónir að koma efninu frá göngunum.

„Staðan er einfaldlega sú að fjárhagurinn leyfir ekki að fara þessa leið sem stendur," segir Haukur en fjárhagur fyrirtækisins leyfir aðeins lágmarksviðhald á mannvirkjum í innanlandsflugvallakerfinu. „Því lítur út fyrir að við getum ekki nýtt efnið nema til komi sérstök fjárveiting."

„Ef ég þekki rétt til, hefjast gangaframkvæmdir á næsta ári. Þess vegna er svo mikilvægt að línur skýrist sem fyrst," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×