Innlent

Vilja leggja veg um Kjöl

BBI skrifar
Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, með Kristján Þór Júlíusson í broddi fylkingar, vilja leggja heilsársveg um Kjöl og lögðu í dag fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni verði falið að kanna hagkvæmni þess. Þess er óskað að ríkisstjórnin skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. apríl.

Nýr vegur um Kjöl gæti stytt leiðina mili Norður- og Suðurlands töluvert. „Flest bendir til að veglagningin um Kjöl yrði ein arðsamasta samgönguframkvæmd sem mögulegt er að ráðast í á Íslandi," segir í greinargerð með tillögunni.

Framkvæmdin myndi stytta akstursleiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um ein 13%. Það myndi hafa jákvæð áhrif á vöruflutninga, en ætla má að um 500 tonn af vörum fari þar á milli á hverjum virkum degi. Leiðin milli Selfoss og Akureyrar myndi og styttast um 141 kílómetra, úr 430 km í 289 km.

Sama tillaga var lögð fram árið 2008 en þá var talað um að vegurinn gæti haft góð áhrif á ferðaþjónustu á landinu. Vegurinn myndi tengja saman helstu ferðamannasvæði landsins og milli Gullfoss og Mývatns gæti myndast „nýr ferðamannaöxull".

Auk Kristjáns eru það þingmennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir,

Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur H. Blöndal, Þorgerður K. Gunnarsdóttir,

Unnur Brá Konráðsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem mæla fyrir tillögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×