Innlent

Forsvarsmenn WOW svara: Við erum víst flugfélag

Skúli Mogensen forstjóri WOW.
Skúli Mogensen forstjóri WOW.
Forsvarsmenn WOW air segja að fyrirtækið sé víst flugfélag og WOW travel sé ferðaskrifstofa sem hafi það að leiðarljósi að veita viðskiptavinum heildarlausn þegar það kemur að ferðum til og frá Íslandi. Þetta segir í tilkynningu frá WOW, þar sem fyrirtækið bregst við umfjöllun Flugmálastjórnar þess efnis að WOW sé ekki flugfélag í þeim skilningi að það hefur ekki flugrekstrarleyfi.

Forsvarsmenn WOW segja að flugfélagið og ferðaskrifstofan leggi allt kapp á að bjóða alltaf ódýrustu fargjöldin til og frá Íslandi ásamt góðu úrvali af hótelum, bílaleigubílum, afþreyingu, pakkaferðum, skíðaferðum, golfferðum og fleiru sem tengist ferðaiðnaði. WOW tók yfir allt áætlunarflug Iceland Express á dögunum og í yfirlýsingunni er það ítrekað að WOW air muni standa við í einu og öllu við allar skuldbindingar gagnvart farþegum Iceland Express.

"Í raun er það liðin tíð fyrir flugfélag að selja eingöngu flugsæti og því tímaskekkja að tala eingöngu um flugrekstur og er ég því sammála Flugmálastjórn í þeim efnum og vil þakka þeim fyrir að vekja athygli á því að við getum skilgreint betur okkar starfsemi. WOW air er vissulega flugfélag sem hefur það að markmiði að veita okkar viðskiptavinum heildarferðaþjónustu hvort sem þeir sækist eftir flugi, hóteli, pakkaferðum eða öðru og alltaf á lægsta mögulega verðinu. Við hlökkum til að halda áfram uppbyggingu WOW air í nánu og góðu samstarfi við fjöldann allan af ferðaþjónustuaðilum hérlendis og erlendis" segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air.


Tengdar fréttir

Segir WOW air nota villandi tungutak

Flugmálastjórn Íslands hefur fundið sig knúið til þess að setja tilkynningu á heimasíðu sína þar sem það er áréttað að WOW air sé ekki flugrekstrarfélag í þeim skilningi að félagið eigi og haldi úti loftfari. Ástæðan er sú að í tilkynningu WOW air þegar félagið yfirtók hluta af rekstri Iceland Express í síðustu viku, kom fram að félagið hefði teki yfir flugrekstur IE.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×