Innlent

Katrín fer gegn Árna Páli

Erla Hlynsdóttir skrifar
Katrín Júlíusdóttir settist í fyrsta sinn í stól fjármála- og efnahagsráðherra í dag
Katrín Júlíusdóttir settist í fyrsta sinn í stól fjármála- og efnahagsráðherra í dag
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, ætlar að sækjast eftir fyrsta sæti í suðvesturkjördæmi í prófkjöri Samfylkingarinnar. „Ég hef verið að melta þetta með mér í nokkurn tíma og ég hef ákveðið að gefa kost á mér í það sæti. Svo er það félagsmanna í suðvesturkjördæmi að taka ákvörðun um það hvernig þeir vilja stilla upp. Ég allavega býð mig fram," segir Katrín, sem tók við lyklavöldum í ráðuneytinu nú skömmu eftir hádegið.

Árni Páll Árnason er fyrsti þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu og sækist hann áfram eftir því sæti, en Katrín er annar. Bæði hafa þau verið orðuð við formannsframboð.

Spurð hvort hún ætli að bjóða sig fram til formanns svarar Katrín: „Ég segi nú bara: Eitt í einu! Það er heilmikið að gefa kost á sér að vera oddviti í kjördæmi. Ef það gengur eftir þá mun ég auðvitað sjá til. En það er einn slagur fyrst og síðan mun ég meta stöðuna í framhaldi af því. En það er ekkert ákveðið og ég hef ekki gengið með formanninn í maganum hingað til en maður á aldrei að útiloka neitt í pólitík," segir Katrín.

Árni Páll gefur heldur enn ekkert upp um hvort hann stefni á að verða næsti formaður Samfylkingarinnar. Hann segir ekki heldur ljóst hvenær hann gerir upp hug sinn. „Það bara kemur þegar það kemur," segir hann.

Ljóst er að sá sem verður ofan á í prófkjörinu, sem fram fer um miðjan nóvember, þykir sterkt formannsefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×