Innlent

Skafti Harðarson kærði DV til sérstaks saksóknara

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skafti Harðarson, hefur fyrir hönd Samtaka skattgreiðenda, kært útgáfufélag DV til sérstaks saksóknara fyrir að hafa ekki staðið skil á opinberum gjöldum.

Í kærunni er vísað til frétta sem birtust í fjölmiðlum vikuna 23. til 28. september 2012, þess efnis að samkvæmt ársreikningi útgáfufélags DV, hafi félagið í lok júlí á þessu ári skuldað tugi milljóna í ógreidda vörsluskatta, þ.e. innheimtan virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda, en meðal annars var greint frá þessu í Markaði, viðskiptablaði Fréttablaðsins.

Í kærunni er bent á að háttsemi DV geti varðað við ákvæði almennra hegningarlaga. Skafti krefst þess að málið verði rannsakað og viðkomandi aðilar verði látnir sæta refsingu.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi ekkert tjá sig um málið þegar Vísir leitaði eftir viðbrögðum frá honum. „Ég get ekkert verið að tjá mig um einstakar kærur sem okkur berast," segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×