Innlent

Þóra Arnórs eyddi tvöfalt meira en Ólafur Ragnar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þóra Arnórsdóttir
Þóra Arnórsdóttir
Forsetaframboð Þóru Arnórsdóttur kostaði fimmtán milljónir sem er ríflega tvöfalt meira en framboð Ólafs Ragnars Grímssonar. Framboðið fékk tæplega ellefu milljónir í styrki frá einstaklingum.

Forsetaframbjóðendum ber lögum samkvæmt að skila upplýsingum um tekjur og kostnað vegna kosningabaráttu sinnar til Ríkisendurskoðunar. Frestur til að skila inn uppgjörum vegna kosningabaráttunnar í vor rann út í dag og hafa allir nema einn frambjóðandi skilað sínum uppgjörum inn.

Ari Trausti Guðmundsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Andrea Ólafsdóttir skiluðu sínu inn fyrir helgi. Þóra Arnórsdóttir og Hannes Bjarnason skiluðu sínum nú um helgina og fékk fréttastofa þau í dag.

Uppgjörin sýna að kosningabarátta Þóru var dýrust en hún kostaði tæpar 15,2 milljónir. Framboðið fékk rúmlega 10,5 milljónir í styrki frá einstaklingum. Þá bárust um fjórar milljónir frá fyrirtækjum. Mestur kostnaður var við auglýsingar og kynningar eða um 7,3 milljónir en þrjár milljónir fóru í kosningaskrifstofu. Framboðið skilaði hagnaði upp á um fimm hundruð þúsund og verður hann gefinn til SOS barnaþorps og Barnaspítala Hringsins.

Kosningabarátta Ólafs Ragnars Grímssonar var næst dýrust en hún kostaði rúma sex og hálfa milljón. Ólafur fékk 2,5 milljónir í styrki frá einstaklingum og 1,5 milljónir frá fyrirtækjum þá lagði hann sjálfur út 2,2 milljónir vegna baráttunnar.

Kostnaður við kosningabaráttu Ara Trausta var tæp 1,8 milljón. Hann fékk tæplega 800 þúsund krónur í styrki frá fyrirtækjum, fimm hundruð þúsund frá einstaklingum og greiddi sjálfur um hálfa milljón vegna baráttunnar.

Þá var kostnaður við kosningabaráttu Hannesar rúm ein og hálf milljón. Hann fékk enga styrki heldur lagði sjálfur út fyrir öllum kostnaði.

Andrea skilaði inn yfirlýsingu um að framboð hennar hafi kostað minna en 400 þúsund krónur.

Uppgjör Herdísar er það eina sem ekki hefur verið sent til Ríkisendurskoðanda. Samkvæmt upplýsingum úr kosningastjórn Herdísar verður það gert í næstu viku.

Baráttan um Bessastaði var nokkuð ódýrari í ár en árið 1996 þegar Ólafur var fyrst kjörinn forseti. Þá kostaði barátta Ólafs 42 milljónir sem er nokkuð meira en samanlagður kostnaður allra þeirra fimm sem nú hafa skilað inn uppgjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×