Erlent

Stríð hafið að nýju á milli Hells Angels og Bandidos í Danmörku

Allar líkur eru á að stríð sé hafið að nýju milli glæpagengjanna Hells Angels og Bandidos í Danmörku. Lögreglan hefur brugðist við með umfangsmikilli aðgerð gegn þessum gengjum.

Yfir 100 meðlimir glæpagengjanna Hells Angels og Bandidos í Danmörku voru handteknir í gærdag þegar danska lögreglan efndi til umfangsmikillar aðgerðar gegn gengjunum og réðist inn í öll klúbbhús þeirra á Sjálandi.

Það var sérsveitin Task Force Öst sem stóð að aðgerðinni í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra landsins. Öllum þeim handteknu var sleppt úr haldi utan sex en krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim í dag.

Meðal þess sem fannst í klúbbhúsunum fyrir utan töluvert magn af fíkniefnum og sterum voru skammbyssur, hnúajárn, hnífar og axir.

Ekstra Bladet segir að stríð sé blossað upp milli þessara gengja að nýju en síðast áttu þau í blóðugu stríði á síðasta áratug síðustu aldar á Norðurlöndunum sem kostaði 11 manns lífið.

Blaðið segir að upphafið að stríðinu megi rekja til þess að fyrir nokkru var gengið í skrokk á einum meðlima AK81 sem er stuðningsklúbbur Hells Angeles. Síðan hafa átökin stigmagnast með hnífstungum og líkamsárásum. Í fyrrakvöld var svo rúmlega 17 tonna þungum flutningabíl ekið á klúbbhús Bandidos á Amager í Kaupmannahöfn.

Hvorki Jørgen „Jønke“ Nielsen forseti Hells Angels né Jan „Den Fede“ Bachmann forseti Bandidos vilja tjá sig um málið í dönskum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×