Erlent

Fékk popp-lunga og 900 milljónir

Dómstóll í Denver dæmdi fyrirtækin til að greiða Wayne tæpar 900 milljónir í skaðabætur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Dómstóll í Denver dæmdi fyrirtækin til að greiða Wayne tæpar 900 milljónir í skaðabætur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Bandaríkjamaðurinn og átvaglið Wayne Watson er sólginn í poppkorn. Svo hrifinn er hann af örbylgjupoppinu að hann hámaði í sig tvo pakka á dag, í tíu ár. Það jafngildir um það bil 7.300 skömmtum af poppkorni, það er ef Wayne fékk sér popp á tyllidögum, sem hann vafalaust gerði.

En það hefur sannarlega sínar afleiðingar að éta álíka mikið af poppkorn og lítil þjóð gerir á einu ári. Wayne fékk popp-lunga.

Lungnavirkni Wayne er nú um 53 prósent. Sjúkdómurinn svipar mjög til astma. Vitað er til þess að verkamenn sem andað hafa að sér efninu díacetýl hafi þróað með sér svipuð einkenni.

En popp-lunga Waynes myndaðist ekki vegna óhóflegrar neyslu á örbylgjupoppi, heldur voru það smjörgufurnar sem orsökuðu veikindin.

Fyrir nokkrum árum ákvað Wayne að höfða skaðabótamál á hendur örbylgjupoppframleiðandanum Glister-Mary Lee sem og versluninni sem hann keypti poppið hjá (verslunareigendurnir hafa líklegt haft viðurværi sitt af Wayne).

Það var síðan í gær sem dómstóll í Denver dæmdi fyrirtækin til að greiða Wayne tæpar 900 milljónir í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×