Erlent

Margir telja kappræðurnar síðustu von Romney

BBI skrifar
Mitt Romney, forsetaframbjóðandi repúblikana, þykir ekki sérlega sigurstranglegur nú þegar síðustu sex vikur kosningabaráttunnar fara í hönd. Sagt er að stór nöfn innan repúblikanaflokksins hafi nú þegar gefið upp alla von um að ná Hvíta húsinu aftur á sitt vald.

Romney hefur átt erfitt sumar og nú síðast lak myndband af honum inn á netið þar sem hann fór ófögrum orðum um stuðningsmenn Obama og sagði að Miðausturlönd yrðu óleyst vandamál um alla framtíð.

Nú telja margir að kappræður forsetaefnanna séu síðasta von Romneys til að koma sér aftur í baráttuna. Kappræðunum er sjónvarpað um Bandaríkin og Romney hefur dregið sig í hlé að undanförnu og æft stíft fyrir kappræðurnar.

Fyrstu kappræðurnar fara fram 3. október í Denver og nýverið lokaði Romney sig af í þrjá daga og æfði spurningar og svör ásamt aðstoðarmönnum sínum.

Það er fréttamiðillinn The Guardian sem segir frá þessu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×