Innlent

Innflytjendur um 8% mannfjöldans - flestir frá Póllandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Erlendir verkamenn að störfum fyrir utan Alþjóðahús.
Erlendir verkamenn að störfum fyrir utan Alþjóðahús. mynd/ rósa.
Innflytjendur voru 8% mannfjöldans, eða rúmlega 25 þúsund talsins, þann 1. janúar síðastliðinn, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það er fækkun um 0,1% frá í fyrra þegar innflytjendur voru 8,1% landsmanna. Nokkuð fjölgaði í annarri kynslóð innflytjenda í fyrra eða úr 2.582 í 2.876. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 8,9% af mannfjöldanum 1. janúar síðastliðinn, sem er það sama og hún var 2011.

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og af foreldrum sem eru líka fæddir erlendis, sem og báðir afar og ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem eru fæddir á Íslandi af foreldrum sem eru báðir innflytjendur. Fólk er talið með erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent.

Eins og síðustu ár voru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi í fyrra. Alls eru 9.228 einstaklingar upprunnir frá Póllandi eða 36,3% allra innflytjenda. Pólskir karlar voru 40,1% allra karlkyns innflytjenda 1. janúar síðastliðinn, eða 4.886 af 12.190. Pólskar konur voru 32,8% kvenkyns innflytjenda. Næstfjölmennasti hópur innflytjenda fæddist í Litháen, 5,6% en 5,4% innflytjenda fæddust á Filippseyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×