Innlent

Engin einkaskilaboð birtust á Facebook

Breki Logason skrifar
Óhætt er að segja að Facebook-samfélagið hafi nánast farið á hliðina í dag þegar fréttir bárust af því að gömul einkaskilaboð væru að birtast á veggjum notenda fyrir allra augum. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja þetta fjarri sannleikanum.

Það var í morgun sem fréttir bárust af því að einkaskilaboð sem skrifuð voru fyrir árið 2009 væru að birtast á tímalínum notenda sem almenn skilaboð frá vini.

Margir fóru á stúfana og urðu sannfærðir um að skilaboðin hefðu upphaflega verið einkaskilaboð sem hefði síðan verið breytt þegar hin svokallaða tímalína varð virk, þannig að nú væru þau öllum sjáanleg.

Forsvarsmenn Facebook brugðust fljótt við og sögðu þetta hafa verið kannað eftir fjölda ábendinga. Þeir hefðu ekki fundið neitt tilvik þar sem þetta hefði verið reyndin.

Þá segja þeir að það sé tæknilega ómögulegt að þetta geti átt sér stað, þar sem einkaskilaboðin og skilaboðin sem birtast á tímalínum séu algjörlega aðskilin kerfi.

Þá hefur verið bent á að á upphafsárum Facebook, það er að segja fyrir árið 2009, hafi fólk oft átt í hrókasamræðum á veggjum hvors annars, þar sem kommentakerfið og spjallið hafi bara ennþá verið hugmynd í höfði Mark Zuckerberg

Það er því ljóst að fólk getur andað rólegra. Engin einkaskilaboð hafa birst á tímalínum segja forsvarsmenn Facebook. En svo eru alltaf til efasemdafólk. Eða fólk sem er búið að gleyma hvernig þetta var allt saman í upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×