Innlent

Kerfisgalli varð til þess að ríkið tvígreiddi reikninga

Komið hefur fyrir að ríkið hefur tvígreitt reikninga í ríkiskerfinu Orra sem Kastljós hefur fjallað um. Í kvöld hélt Kastljós áfram umfjöllun sinni en þar kom fram að vegna galla í kerfinu hafi einkafyrirtæki fengið tvívegis greitt frá ríkinu fyrir vinnu sem unnið var fyrir hið opinbera. Ríkið krafðist ekki endurgreiðslu.

Fram kemur í úttekt Kastljós í kvöld að þar á bæ hafi menn séð gögn frá fyrirtækjum sem sýni fram á þetta, en ekki sé hægt að nafngreina fyrirtækin.

Þá kom ennfremur fram í úttektinni að greiðslurnar virðast hafa verið tilviljanakenndar. Villan var að lokum löguð en meginorsök hennar hafi þó enn verið í kerfinu. Einnig kom fram í umfjöllun Kastljóss að gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við það hversu margir hafi aðgang að kerfinu en hundruðir notenda gátu opnað eða bakfært færslubækur sem aðrar stofnanir notuðu, því hafi fjöldi notenda getað misnotað kerfið hafi þeir viljað.

Í gær kom fram að upprunalega hafi verið gert ráð fyrir því að innleiðing kerfisins, sem var á vegum Skýrr, nú Advania, hafi átt að kosta 160 milljónir króna. Að lokum hafi það þó kostað fjóra milljarða.

Hægt er að lesa nánar um málið á vef RÚV þar sem einnig má finna skýrslu Ríkisendurskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×