Innlent

Yom Kippur hátíðin í dag einnig haldin á Íslandi

Yom Kippur helgasta hátíð gyðinga hófst í gærkvöldi. Hún er haldin hátíðleg víða um heim og þar á meðal á Íslandi.

Stúdentar frá rabbínaskólanum Chabad-Lubavitch í Bandaríkjunum eru nú staddir á Íslandi til að aðstoða þá gyðinga sem hér eru við að halda Yom Kippur hátíðlega með öllum þeim siðum og athöfnum sem slíku tilheyrir. Yom Kippur markar þann dag í dagatali gyðinga þegar guð innsiglar örlög þeirra næsta árið.

Yom Kippur hófst um kvöldmatarleytið í gærkvöldi og sendur yfir í 25 klukkutíma. Á þessu tímabili er fastað og haldnar fimm bænastundir í stað hinna hefðbundnu þriggja á hverjum degi.

Á vefsíðu Chabad segir að rabbíinn Berel Pewzner sé staddur á Íslandi, annað árið í röð, og að hann muni stjórna lokakvöldverði hátíðarinnar í kvöld á ótilgreindu hóteli í Reykjavík.

Rabbíinn er fæddur og uppalinn í Harrisburg í Pennsylvaníu en hann mun vel kunnur landi og þjóð að sögn vefsíðunnar þar sem hann hefur áður heimsótt Ísland til að breiða út fagnaðarerindi Chabad-Lubavich skólanna meðal landsmanna.

Sjálfur segir Pewzner að hann hafi alist upp við að aðstoða alla gyðinga. Hann elski að hitta þá og greiða götu þeirra á hvern þann veg sem hann getur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×