Innlent

Brynjar stefnir á 3. sætið hjá sjálfstæðismönnum í borginni

Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Brynjar stefnir á 3. sæti listans.

Brynjar hefur sent frá sér yfirlýsingu sem hljóðar svo: „Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar. Mun ég sækjast eftir 3. sæti listans. Með þessari ákvörðun er ég að svara áskorunum og kalli fjölda fólks, sem hvatt hefur mig eindregið til stjórnmálaþátttöku og vísað til þess að þörf sé á nýju fólki í fremstu röð.

Þótt ég hafi ekki áður komið að pólitísku starfi innan Sjálfstæðisflokksins hafa skoðanir mína og flokksins jafnan farið saman í meginatriðum og mér er hugleikin baráttan fyrir réttarríkinu, frelsi einstaklingsins til orða og athafna, sem og hið opna frjálsa þjóðfélag. Að þessum grunnstoðum borgaralegs samfélags er vegið freklega nú á tímum.

Við blasir að mikilvæg verkefni á öllum sviðum íslensks samfélags bíður næsta kjörtímabils, enda hefur hik, úrræðaleysi og óeining einkennt starf núverandi stjórnarflokka. Vil ég því leita eftir stuðningi sjálfstæðisfólks til að leggja lóð mín á vogarskálar aukinnar verðmætasköpunar og nýrrar sóknar fyrir land og lýð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×