Innlent

Kannabisræktandi benti fyrir tilviljun á annan ræktanda

Athugið að myndin er úr safni.
Athugið að myndin er úr safni.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór á stúfana í Kópavogi í fyrradag eftir að hafa fengið ábendingar um megna kannabislykt sem virtist koma frá tilteknu fjölbýlishúsi. Eftir smá rannsóknarvinnu ákváðu lögreglumennirnir að spyrjast fyrir í einni íbúð hússins, en henni fylgdi bílskúr sem talinn var líklegur vettvangur ræktunar.

Eigandi bílskúrsins, maður á fertugsaldri, kannaðist ekki við neitt en gat hins vegar ekki sýnt lögreglumönnum bílskúrinn þar sem hann hafði orðið fyrir því óláni að týna bílskúrshurðaopnaranum. Til að villa um fyrir lögreglumönnum gat hann þess hins vegar að annar íbúi í húsinu, maður á þrítugsaldri, væri miklu líklegri en hann til að vera að rækta efni.

Eftir nokkuð þóf gaf maðurinn sig þó og opnaði bílskúrinn. Í fyrstu var ekki annað að sjá en að um venjulegan bílskúr væri að ræða. Annað kom hins vegar á daginn því lögreglumennirnir á vettvangi höfðu mikla reynslu af slíkum málum og sáu strax að ekki var allt með felldu. Þeir höfðu rétt fyrir sér því eftir nokkra leit fundu þeir 35 plöntur.

Lögreglumennirnir voru þó ekki alveg hættir því þeir ákváðu að kanna einnig með hinn áðurnefnda íbúa hússins. Honum brá nokkuð við komu lögreglu og vísaði þeim á 73 kannabisplöntur sem hann var að rækta í kjallara hússins. Við yfirheyrslur kom í ljós að mennirnir vissu ekki af ræktun hvors annars þó þeir væru við sömu iðju undir sama þaki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×