Innlent

Tófan komin í "hlaðborð" eftir fárviðrið

BBI skrifar
Bændur hafa þurft að grafa fé úr fönn að undanförnu.
Bændur hafa þurft að grafa fé úr fönn að undanförnu. Mynd/Hallgrímur Óli hjá Landsbjörg
Helsta áhyggjuefni fjárleitarmanna á Norðurlandi sem síðustu daga hafa dregið kindur upp úr snjósköflum eftir óveðrið er tófan. Þetta segir Guðmundur Hjálmarsson, bóndi á Korná í Skagafirði, sem hefur síðustu daga komið að hverri kindinni á fætur annarri sem tófan hefur leikið illa.

Guðmundur segir að þetta sé það versta sem maður lendir í. „Ég kom að sex kindum í gær sem bókstaflega vantaði andlitið á. Búið að rífa svoleiðis nasirnar af því og samt var það lifandi," segir Guðmundur og segir að tófan sé vandamál númer eitt, tvö og þrjú á svæðinu.

Guðmundur óttast að missa margar kindur í tófuna. „Alveg óhemju. Hún bara drepur og drepur. Miklu meira en hún þarf," segir hann. Hann segir að vissulega kafni ein og ein kind undir snjósköflum en flestar fari í tófuna.

Tófan ræðst bæði á kindur sem sitja fastar og þær sem eru ofanjarðar, sem eiga oft í erfiðleikum með að forða sér. Þær eru gjarna með klakabrynju fasta utan á sér og minna helst á gangandi snjóskafl.Mynd/Hallgrímur Óli hjá Landsbjörg
Guðmundur segir tófuna ráðast á kindurnar í fylkingum. Þannig hamist þær margar í einu lambi sem stendur út úr skafli ef svo ber undir. „Ég var að finna lamb sem stóð á kafi í snjóskafli. Lambið var lifandi en tófan var búin að éta sig á kaf í lærið á því," segir hann.

Tófan fjölgar sér stöðugt á svæðinu að sögn Guðmundar og er að verða ein allsherjar plága. „Þær eru alls staðar hérna. Svo er búið að friða þetta helvíti á Vestfjörðum og ríkið er hætt að styrkja tófuveiðar," segir hann. Þess vegna eru menn hættir að eltast við hana og hún fjölgar sér takmarkalaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×