Erlent

Vörpudrifið ekki lengur skáldskapur

Margir kannast vafalaust við vörpudrifið svokallaða en það gegndi miðlægu hlutverki í Star Trek sjónvarpsþáttunum á sínum tíma. Nú sjá vísindamenn fram á að þessi heillandi tækni gæti í raun orðið að veruleika.

Vörpudrifið (e. Warp drive) byggir á þeirri hugmynd að geimfar geti farið á svig við lögmál eðlisfræðinnar og ferðast á milli tveggja staða í tímarúminu án þess að fara hraðar en ljósið.

Það var eðlisfræðingurinn Miguel Alcubierre sem fyrstur manna reiknaði út þá orku sem þyrfti til að knúa vörpudrif. Niðurstaðan var hreint ekki jákvæð og varð hún til þess að vísindamenn afskrifuðu hugmyndina með öllu. Niðurstöður Miguels gáfu til kynna að það þyrfti álíka mikla orku og samanlagðar efnisagnir Júpíters búa yfir.

mynd/NASA
En hugmyndir Miguels hafa nú gengið í endurnýjun lífdaga. Vísindamenn við Geimferðastofnun Bandaríkjanna hafa endurbætt kenninga Miguels. Þeir áætla að vörpudrif gæti í raun verið knúið af álíka mikilli orku og Voyager 1 geimfarið sem NASA skaut á loft árið 1977.

Þá munu sveiflugjafar einfalda þetta ferli enn frekar og í kjölfarið verður orkuþörfin minni.

„Niðurstöðurnar sem við kynnum í dag draga hugmyndina um vörpudrif úr heimi skáldskapar yfir í raunveruleikann," sagði Harold White hjá Johnson Space Center í Houston. „Núna þurfum við einungis að halda rannsóknum okkar áfram."

Hægt er að kynna sér málið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×