Erlent

Fengu leg úr mæðrum sínum

Skurðlæknarnir sem tóku þátt í aðgerðinni.
Skurðlæknarnir sem tóku þátt í aðgerðinni. mynd/AP
Sænskir skurðlæknar brutu blað í sögu læknisfræðinnar á dögunum þegar leg voru grædd í tvær konur. Líffæragjafarnir voru mæður kvennanna og gætu þær því átt möguleika á að ganga með börn í sama legi og gengið var með þær í.

Tíu skurðlæknar komu að aðgerðinni en hún fór fram á háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg um helgina.

Aðgerðin þykir afar metnaðarfull og hafa læknarnir sagt að skurðaðgerðirnar verði ekki taldar árangursríkar nema að konurnar tvær muni ganga með börn á næstu tólf mánuðum.

„Við munum aðeins tala um góðan árangur þegar við sjáum börn," sagði Michael Olausson, einn af skurðlæknunum sem tóku þátt í aðgerðunum. „Það er eina leiðin."

Fósturvísar voru undirbúnir fyrir aðgerðina. Þeim verður síðan komið fyrir í konunum á næstu mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×