Erlent

Árásirnar bitna helst á almennum borgurum

BBI skrifar
Uppreisnarmaður í Sýrlandi.
Uppreisnarmaður í Sýrlandi. Mynd/AFP
Almennir borgarar, þar á meðal mörg börn, eru helstu fórnarlömb árása hersins í Sýrlandi. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Amnesty International.

Síðustu vikur virðist hafa komið fram nýtt mynstur í átökunum í Sýrlandi. Hersveitir stjórnvalda eru nú að sprengja og skjóta sprengikúlum handahófskennt á þau svæði sem herinn hefur misst eftir að hafa þurft að hörfa undan hersveitum stjórnarandstæðinga. Ónákvæmar árásir sem þessar teljast til stríðsglæpa og hafa hörmulegar afleiðingar fyrir almenna borgara.

"Hersveitir ríkisins eru nú ítrekað að sprengja og skjóta sprengikúlum á þorp og bæi með ónákvæmum vopnum sem ekki er hægt miða á ákveðin skotmörk, vitandi það að fórnarlömb slíkra ónákvæmra árása eru næstum alltaf almennir borgarar. Þessi vopn ættu aldrei að vera notuð á íbúðahverfi" sagði Donatella Rovera, starfsmaður Amnesty International, sem nýverið kom til baka frá norðurhluta Sýrlands.

Enn er alþjóðasamfélagið lamað sem fyrr og klofið í ágreiningi. Það hefur hingað til komið í veg fyrir að árangursríkur þrýstingur sé settur á ábyrga aðila sem standa fyrir slíkum árásum. Amnesty international telur að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eigi að vísa máli Sýrlands til saksóknara hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum til að tryggja það að þeir sem fremja stríðsglæpi og aðra glæpi sem falla undir alþjóðalög verði dregnir fyrir rétt.

Samantekt Amnesty International byggist á rannsóknum sem framkvæmdar voru í byrjun september. Hér má sjá myndbandsupptökur sem gerðar voru samhliða rannsóknunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×