Enski boltinn

Joe Allen: Ég vil fara til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Allen í leik með breska landsliðinu á ÓL í London.
Joe Allen í leik með breska landsliðinu á ÓL í London. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sky Sports hefur heimildir fyrir því að Liverpool sé búið að samþykkja að hækka tilboð sitt í Joe Allen hjá Swansea og að leikmaðurinn sjálfur vilji fara til Liverpool.

Joe Allen er aðeins 22 ára gamall en hann sló í gegn í ensku úrvalsdeildinni síðasta vetur undir stjórn Brendan Rodgers hjá Swansea. Rodgers gerðist síðan stjóri Liverpool í sumar og vildi ólmur fá Allen til sín á Anfield.

Swansea er búið að hafna 12,5 milljón punda tilboði Liverpool í Allen en forráðamenn Liverpool eru nú tilbúnir að borga fimmtán milljónir punda fyrir leikmanninn sem er nær því sem Swansea vill fá fyrir þennan stórefnilega miðjumann.

Michael Laudrup, nýr stjóri Swansea, ætlar að tala við Joe Allen þegar hann kemur til baka frá keppni með breska landsliðinu á Ólympíuleikunum en danski stjórinn hefur gefið það skýrt út að það sé Allen sjálfur sem muni ráða því hvar hann spili í vetur.

Brendan Rodgers er búinn að kaupa einn leikmann til Liverpool en hann fékk Fabio Borini frá Roma. Allen verður þá væntanlega önnur kaup hans síðan að hann tók við stjórnartauminum á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×