Enski boltinn

Úrvalsdeildarfélög hafa enn áhuga á Michael Owen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen
Michael Owen Mynd/Nordic Photos/Getty
Michael Owen verður kannski áfram í ensku úrvalsdeildinni á komandi tímabili þótt að hann hafi ekki fengið nýjan samning hjá Manchester United.

Umboðsmaður hans heldur því fram að nokkur félög í ensku úrvalsdeildinni hafi áhuga á því að semja við þennan 32 ára framherja.

Eitt af þessum félögum er Stoke City samkvæmt heimildum BBC en það er ljóst að það fylgir því nokkur áhætta að veðja á Owen sem hefur verið mikið meiddur síðustu ár.

Michael Owen hefur spilað með þremur félögum í ensku úrvalsdeildinni; Liverpool (1996-2004), Newcastle (2005-09) og Man Utd (2009-12) en hann lék með spænska stórliðinu Real Madrid frá 2004 til 2005.

Owen hefur verið orðaður við lið í Miðausturlöndum en hann telur sig eiga eitthvað eftir í enska boltanum og lýsti því yfir á twitter-síðu sinni í júlí að hann ætti eftir að skora nokkur mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Owen samdi óvænt við Manchester United sumarið 2009 og skoraði níu mörk á sínu fyrsta tímabili. Hann spilaði lítið sem ekkert undanfarin tvö tímabil vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×