Erlent

Boðað til mótmælafundar vegna ástandsins í Sýrlandi

Karen Kjartansdóttir skrifar
mynd/AFP
„Sýnum almenningi í Sýrlandi samstöðu, krefjum alþjóðasamfélagið til aðgerða til að stöðva morð á börnum, konum og körlum." Þetta segir einn stofnanda og fyrrverandi framkvæmdastjóri Hinsegin daga sem boðað hefur til samstöðu og mótmælafundar á Austurvelli á miðvikudaginn.

Hátt í fimm hundruð manns hafa látist í átökunum í Sýrlandi síðustu tvo sólarhringa. Stjórnarherinn í landinu hefur í nótt gert árás á vígi uppreisnarmanna í höfuðborginni Damaskus en uppreisnarmenn náðu í gær völdum á landamærastöðvum við Írak og Tyrkland.

Blóðsúthellingarnar í Sýrlandi virðast engan enda ætla taka og segir Heimir Már Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hinseginn daga, að hann vilji ekki sitja aðgerðarlaus og hlusta á fréttir af grimmdarverkum þar í landi heldur sýna samstöðu með fólkinu sem þar þjáist.

„Mér ofbýður, eins og svo mörgum öðrum, að heyra fréttir dag eftir dag að það sé verið að myrða saklaus börn, konur og karla án þess að alþjóðasamfélagið geti brugðist við," segir Heimir. „Það virðist enginn endir vera í sjónmáli. Almenningur í Sýrlandi á að búa við það vera myrtur við það eitt að ganga út á götur."

Heimir segir að þótt Íslendingar séu ekki margir eigi þeir rödd. Ef þeir standi saman og segi umheiminum að þeir hafi fengið nóg geti þeir haft áhrif. Hann hvetur almenning til að krefjast þess að íslensk stjórnvöld berji upp allar á hurðir í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna og krefist þess að eitthvað sé gert til að stöðva hörmungarnar.

Heimir skorar á fólk að mæta á samstöðufund með Sýrlandi næsta miðvikudag, 25. júlí klukkan þrjú á Austurvelli. Heimir segir engin skipulögð samtök standa á bak við þetta fundarboð en vonar að sem flestir mæti. Heimir segir að þeir sem vilji leggja sitt af mörkum, spila, halda ræðu, koma með fána eða gera eitthvað geti haft samband við sig á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×